Hagnýtar upplýsingar

Opnunartími leikskólans

hus_rautt 

Opnunartími leikskólans er frá kl. 07.30 til 17.00

Aðlögun

Þegar barnið byrjar í leikskólanum.

Þegar barn hefur fengið vilyrði um vistun sumar/haust eru allir foreldrar sem staðfest hafa umsókn sína um leikskólapláss boðaðir til fundar í leikskólanum með leikskólastjóra og deildarstjórum.

Á þessum fundi veitir leikskólastóri upplýsingar um starfsemi leikskólans svo og þjónustu þjónustumiðstöðvar Árbæjar og Grafarholts og Skóla og frístundasviðs. 

Foreldrar eru síðan boðaðir á einstaklingsfund þar sem farið er yfir hlestu upplýsingar um barnið og gengið frá dvalarsamningi.   

Vistunartími barna

clockForeldrar gera dvalarsamning við upphaf leikskóladvalar. Í dvalarsamning kemur fram sá dvalartími sem foreldrar óska fyrir barn sitt. Mikilvægt er að ekki sé farið yfir umsaminn tíma því starfsfólki er raðað á vinnutíma eftir fjölda barna á hverjum tíma.

Að koma með barn og sækja í leikskólann

Þegar barn byrjar í leikskóla ganga foreldrar frá því hverjir hafa leyfi til að sækja barnið. Komi til  að aðrir sæki börnin en þeir sem hafa til þess leyfi er nauðsynlegt að láta deildarstjóra  viðkomandi deildar vita.  Við höfum ekki leyfi til að afhenda börnin öðrum en þeim sem foreldrar hafa gefið leyfi fyrir.
 

Við í Árborg leggjum áherslu á að börn og starfsfólk heilsist í upphafi dags, þegar komið er í leikskólann og á sama hátt  kveðjum við í lok dags.
Ekki er ætlast til að barn yngra en 12 ára komi með eða sæki barn í leikskólann

Mikilvægt er að foreldrar virði dagskrá leikskólans,  sérstaklega eru  matar- og hvíldartímar viðkvæmur . Við óskum eftir því að ekki sé mætt með börnin þegar þessar stundir eru byrjaðar vegna  truflunar sem það veldur. Starfsmenn vilja  taka eins vel á móti barninu  og kostur  er.

Foreldraviðtöl og fundir

 

Foreldraviðtal er  einu sinni á ári, að vori í mars /apríl og að auki er foreldraviðtal við foreldra elstu barna um niðurstöður Hljóm prófs í okt/nóv. 

Foreldrafundur með öllum foreldrum er haldinn í október. Á þessum fundi er kynnt vetrarstarfið í leikskólanum. Foreldrafélagið heldur einnig sinn aðalfund að hausti. 

 Foreldrar geta óskað eftir viðtali hvenær sem er í samráði við viðkomandi deildarstjóra eða leikskólastjóra.

Uppsögn og breytingar á dvalarsamningi

 

Við upphaf leikskólagöngu barnsins er gerður dvalarsamningur um lengd  dvalartíma þess í leikskólanum. 

 

Ef foreldrar þurfa að breyta dvalartíma barnsins af einhverjum ástæðum, þarf að sækja um það í gegnum Rafræna Reykjavík.  Breytingar á dvalartíma miðast við mánaðarmót.

 

Uppsögn  á dvalarsamningi þarf að gera skriflega með eins mánaðar fyrirvara og miðast við mánaðarmót.

 

Skipulags og námskeiðsdagar

 

Leikskólinn er lokaður sex daga á ári vegna skipulagsvinnu og námskeiða  starfsmanna. Dagarnir skiptast á  haust og vorönn.  Þessir dagar eru notaðir til að skipuleggja og endurmeta starfið og einnig til fræðslu og endurmenntunar starfsfólks.

Dagarnir eru auglýstir með minnst 3ja vikna fyrirvara.

Útivera

 

Börnin fara út á hverjum degi, jafnvel þó veður sé ekki mjög gott. Útivera styrkir og eflir mótstöðuafl, eykur matarlyst  og býður upp á holla hreyfingu sem öllum er nauðsynleg. Það er ekkert sem bendir til þess að börn sýkist fremur í útilofti en innandyra. Börn sem dvelja mikið innandyra eru kulsælli en þau börn sem vön eru útiveru.  Vert er að geta að börn sem dvelja mikið inni missa af hollu og eðlilegu samneyti við félaga sína.  Með þetta í huga eru foreldrar beðnir um að hafa samráð við starfsfólk áður en beðið eru um að hafa barnið inni vegna smávægilegra kvilla.

Matmálstímar

Máltíðir eru þrjár á dag. Morgunnmatur , hádegismatur, og síðdegishressing.


 

  • Morgunmatur kl. 08.15-08.45
  • Hádegismatur kl. 11.30-12.00 á öllum deildum
  • Síðdegishressing kl. 14.45-15.15


Mikilvægt er að börn sem eru í morgunmat séu komin í leikskólann fyrir kl. 08.45

Fatnaður

bakpokar

Nauðsynlegt er fyrir barnið að vera í hentugum fatnaði í leikskólanum. Í leikskóla-starfinu eru börnin að fást við ýmiskonar efnivið, þau hreyfa sig mikið, hitna og svitna. Því viljum við benda foreldrum á að hafa þetta í huga við val á fatnaði.

Börnin fara út á hverjum degi og því er nauðsynlegt að hafa útifatnað í samræmi við veðráttu eða veðurútlit.  Mikilvægt er að merkja fatnaðinn vel.

Einnig er nauðsynlegt að hafa aukaföt í leikskólanum s.s nærföt, peysu, buxur og sokka ef einhver óhöpp verða.  Foreldrar þurfa að fylgjast með fatakössum og bæta í fatnaði eftir þörfum.

Veikindi barna

sicksmileyface2 

Börn þurfa að vera frísk til að geta tekið þátt í allri starfsemi  leikskólans.   Veik börn verða því að vera heima þar til þau hafa náð sér.

 

Þurfi barn að vera inni eftir veikindi eru foreldrar eða forráðamenn beðnir að hafa samráð um það við deildarstjóra viðkomandi deildar. Komið er til  móts við foreldra þegar barn er að jafna sig eftir veikindi og er  þá möguleiki á að vera inni 1-2 daga,  fer eftir eðli veikinda.

 

Leikskólinn getur ekki verið í fyrirbyggjandi aðgerðum varðandi það að börn þurfi að vera inni því þau séu hugsanlega að verða veik. 

 

Komi barnið ekki í leikskólann eru foreldrar beðnir að láta okkur vita. Þetta er nauðsynlegt til að við vitum hverjir tilheyra barnahópnum hvern dag og einnig til að vita hvaða veikindi eru í gangi hverju sinni.

 

Slys á börnum

fyrsta_hjalp 

Komi það fyrir að barn verði fyrir óhappi eða slysi í leikskólanum er haft samband við foreldra.  Við óskum eftir að foreldri fari með barnið á heilsugæslu eða slysadeild ef sú staða kemur upp. Slys eru skráð í leikskólanum á sérstök eyðublöð.  

Afmæli

afmaeli 

Þegar börnin eiga afmæli eru þau í forgrunni þann dag í leikskólanum. Börnin fá kórónu  og afmælissöngur er sungin einnig fá þau  að velja sér sérstakan afmælisborðbúnað og borðskraut  þennan dag úr skáp sem stendur á gangi við salinn. Flaggað er fyrir afmælisbarninu með fána leikskólans.  Í lok mánaðar er sungið fyrir öll afmælisbörn mánaðarins og súkkulaðiterta er höfð í kaffitíma e.h  á öllum deildum. Ekki er óskað eftir að börnin komi með veitingar að heiman á afmælisdaginn. 

Lyfjagjöf á leikskólatíma

pilla 

Megin regla er sú að  starfsfólk gefi ekki börnum lyf í leikskólanum.  Flest sýklalyf sem börn taka eru þess eðlis að hægt er að gefa þau tvisvar á dag, því viljum við beina því til foreldra að ráðfæra sig við lækni og fá lyfjagjöfinni hagrætt með tilliti til þess. 

 

Ef barn notar astmalyf eða önnur lyf sem ekki er hægt að setja undir það sem að ofan er getið, eru foreldrar beðnir að hafa samráð við deildarstjóra viðkomandi deildar um fyrirkomulag þess.

Hve langt er sumarfrí barna?

sun

Börn í leikskólum skulu taka minnst 4 samfelldar vikur í sumarleyfi ár hvert. Leikskólagjöld eru greidd fyrir 11 mánuði á ári.  

Leikskólar hafa val um að hafa opið allt sumarið eða loka í 2-4 vikur á hverju sumri. Ákvörðun um sumarleyfi er tekin í samráði við foreldraráð leikskólanna. 
 

Samstarfsaðilar

 

Leikskólinn er í samskiptum við ýmsa aðila utan hans s.s Greiningarstöð ríkisins, Barna og unglingageðdeild (BUGL), Heilsugæsluna Árbæ, Þjónustumiðstöð, Árbæjarskóla og fl.


Í lögum um vernd barna og unglinga nr.58/1992  er kveðið á um að starfsmenn leikskóla eru tilkynningarskyldir til Barnaverndarnefndar Reykjavíkur um illa meðferð á börnum eða grunsemdir þar af lútandi. Tilkynningarskylda þessi gengur framar ákvæðum laga um þagnarskyldur viðkomandi starfsstétta.

Leikskólinn Árborg | Hlaðbæ 17 | 110 Reykjavík | s: 587 4150 | This e-mail address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. | loginInnskráning